Enn kveikt í sinu.. með leyfi Sýslumanns

Þessir aðilar brenndu sinu með leyfi Sýslumannsins á Akureyri en að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að Slökkvilið Akureyrar kemur ekki að þessum leyfisveitingum og hefur ekki verið leitað umsagnar Slökkviliðsins áður en þessi leyfi eru veitt enda ekki ákvæði um slíkt í lögum.   
Lögin taka heldur illa á mengunarþætti þess að brenna sinu en slökkviliðsstjóri getur aðeins gert athugasemdir ef hætta er á útbreiðslu elds eða mannvirki eða gróður eru í hættu.  Það er mat yfirstjórnar Slökkviliðs Akureyrar að þessum lögum þyrfti að breyta og reyndar er það mat sérfræðinga að slíka brennslu ætti ekki að leyfa.

Lög um sinubrennur

Reglugerð um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi

 

Að gefnu tilefni þykir okkur rétt er að birta hér aftur hluta úr frétt um sinubruna frá því fyrr í mánuðinum (sjá hér að neðan)

Áður fyrr var oftast um útköll að ræða vegna fikt barna og unglinga en góðu heilli hefur þeim útköllum fækkað mjög með markvissri fræðslu og góðu eftirliti foreldra og ábyrgri hegðun barna.  Hins vegar hefur útköllum fjölgað vegna sinubruna í sveitum þar sem oftast er um að ræða að ábúendur kveikja viljandi í sinu og oft með leyfi frá  sýslumanni og jákvæðri umsögn umhverfisnefndar viðkomandi sveitarfélags.  Þá er oftast um að ræða eld sem viðkomandi missa stjórn á eða veldur óásættanlegri mengun fyrir nágranna. 

Við teljum að allt fordæmi fyrir því að brenna gróður eða annað á víðavangi er slæmt nema þá að sterk rök mæli með því, tryggt sé að eftirlit sé með brunanum og viðeigandi varúðarráðstafanir séu gerðar. Við höfum unnið markvisst í því að stemma stigu við íkveikjum án leyfis, bæði hjá börnum og fullorðnum og bent á hættur því samfara.   Útköllum vegna sinubruna eða bruna í rusli fylgir alltaf nokkur kostnaður vegna innkalla slökkviliðsmanna á frívakt og notkunar tækja sem ekki voru þá til taks vegna annarar hættu sem upp getur komið á sama tíma.

Reynslan hefur sýnt að afar erfitt getur verið að halda sinubruna í skefjum eða takmarka hann við ákveðin svæði.  Benda má á mjög mörg dæmi þess að saklaus sinubruni fór úr böndunum og olli tjóni, bæði á gróðri og mannvirkjum.

Síðast en ekki síst getur sinubruni valdið mikilli mengun vegna þess að um mjög ófullkominn bruna er að ræða og aðeins hluti eldsneytis breytist í orku en megnið verður að reyk.  Slíkur reykur getur reynst hættulegur eins og allur annar reykur sem verður við ófullkominn bruna á lífrænum efnum.  Í flestum tilfellum er þó aðeins um óþægindi að ræða en mikil sterkja og lykt fylgir brennslu á sinu.  Hafa verður því í huga ríkjandi vindáttir, vindstyrk og nálægð við þéttbýli þegar slík leyfi eru veitt.

 

 Sinubruni 28. apríl 2007

Þessi mynd var tekin  á laugardaginn 28. apríl 2007, verið var að brenna sinu á bænum Þverá í Eyjafjarðarsveit, myndin er tekin til suðausturs yfir flugvöllinn á Akureyri (mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson akureyri.is)

 Sinubruni 28. apríl 2007

 Þessi mynd er tekin á sama stað til norðurs, sjá má reykinn út með ströndinni að austanverðu allt norður í Grýtubakkahrepp.  (mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson akureyri.is)