Flugslysaæfing

Slökkvilið Akureyrar vinnur að fræðslu til handa flugvallarvörðum á landsbyggðarflugvöllum samkvæmt samningi við Flugstoðir. Farið er tvisvar á ári með fræðslu á flugvellina og er núna fyrri hluti þessa árs um það bil hálfnaður.

Á miðvikudag í sl. viku var farið til Vestmannaeyja með fræðslu til starfsmanna á flugvelli og einnig undirbúin flugslysaæfing ,en hún er haldin á 5 ára fresti á þeim flugvelli. Um er að ræða þriðju flugslysaæfinguna sem fram fer á Vestmanneyjarflugvelli frá því að farið var af stað með þessar æfingar. Það verður að segjast að æfingin gekk í alla staði vel og er ljóst að þessar æfingar skila sínum árangri í samvinnu þeirra björgunaraðila sem að þurfa að vinna saman í slíkum tilfellum.

Í upphafi mæðir mikið á þeim viðbragðsaðilum sem á flugvellinum starfa og viðbragð slökkvibíls á vettvang þarf að vera gott. Í fyrstu ber þeim flugvallarstarfsmönnum sem sjá um slökkvistarf að halda í skefjum eldi í vélinni og verja flóttleiðir farþega. Á þessari æfingu sást vel hversu öflug þessi eining er í eyjum. Bæjaslökkviliðið kom síðan á vettvang og studdi frekara slökkvistarf og saman unnu þessi tvö lið sem eitt að því að tryggja vettvang.

Þegar vettvangur hafði verið tryggður þá var hægt að hefjast handa við björgun farþega. Sú aðgerð tókst prýðilega og komu lögregla, björgunarsveitir, Landhelgisgæslan að þeim þætti ásamt fjölda annara viðbragðsaðila.

Vettvangsstjórn, aðgerðastjórn ásamt samhæfingarmiðstöðinni í skógahlíð unnu í skipulagsmálum á meðan á æfingunni stóð. Margt lærist á slíkum æfingum en samdóma álit þeirra sem í æfingunni tóku þátt að æfingin hafi tekist vel í heild sinni.

Undirritaður vill þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessari æfingu og þakkar góðar móttökur eyjamanna.

 

Þorbjörn Haraldsson

slökkviliðsstjóri.