Miklar annir hjá Slökkviliðinu í dag

Miklar annir hjá slökkviliðinu í dag.

Dagurinn byrjaði með sjúkraflugi kl. 8:00 Akureyri - Reykjavík. kl 12 var svo lagt af stað í sjúkraflutning á austfirði. kl.13 fór svo annað flug í gang Höfn - Reykjavík. Um kl. 15:30 komu boð um mikinn ammoníaksleka um borð í togara í flotkvínni við Slippinn Akureyri. Um töluverðan leka var að ræða og í fyrstu var ekki vitað hvort allir væru komnir frá borði. Fjórir menn voru á stöðinni til að anna þessu útkalli og fóru strax 2 að græja sig í eiturefnagalla en varðstjórinn fór á vettvang til að meta aðstæður á staðnum og var það mat hans að kalla út allsherjarútkall á liðið vegna umfangs lekans.

Þegar mannskapurinn mætti á stöðina kom annað útkall eða um 15:40 en tilkynnt var um árekstur og bílveltu á Svalbarðsströnd en þar hafði flutningabíll oltið út af veginum við áreksturinn. Sendir voru tveir sjúkrabílar á vettvang og fluttu þeir tvo slasaða, einn úr hvorum bíl til skoðunar á slysadeild FSA. Jafnframt var einn sjúklingur fluttur frá Slippnum til skoðunar vegna óþæginda.

Þegar þetta er skrifað er sjúkrabíllinn sem fór austur í morgun á leið til Akureyrar og sækist seint vegna blindbils og ófærðar. Að öðru leiti er rólegt í augnablikinu.