Níu manns fluttir á slysadeild eftir tvö umferðarslys

Tilkynning um fyrri áreksturinn kom um kl. 15:30 og var hann við bæinn Sólberg.  Um var að ræða jeppa sem keyrði aftan á rútu sem hafði numið staðar til að hleypa út farþegum.  Tveir farþegar jeppans slösuðust en beita þurfti klippum til að ná farþega úr bílnum.  Ekki er talið að um alvarleg meiðsl hafi verið að ræða.  Jeppinn er gjörónýtur og rútan talsvert skemmd.

Seinni áreksturinn varð síðan kl. 16:12 rétt austan Leirubrúar en slökkviliðsmenn og stjórnendur komu fyrstir að því slysi á leið sinni frá hinu slysinu.  Sá árekstur var geysiharður en fimm manns voru í öðrum bílnum en tveir í hinum.  Þurfti að beita klippum til að ná ökumanni annars bílsins en hann slasaðist talsvert.  Einn úr hinum bílnum slasaðist einnig alvarlega en allir voru fluttir á Sjúkrahús Akureyrar til skoðunar og meðferðar. Báðir bílarnir eru taldir ónýtir.

Samtals unnu í þessu slysi 13 slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn frá SA á 3 sjúkrabílum, dælubíl með klippum og tveimur þjónustubílum auk vaktlæknis á læknabíl.  Ennfremur kom sjúkrabíll Dalvíkinga mannaðir tveimur sjúkraflutningamönnum til aðstoðar á slysstað en þeir voru staddir á Akureyri en fjórði sjúkrabíll SA var í flutningi utanbæjar.  Lögregla og vegfarendur veittu einnig góða aðstoð.

Mikið annríki hefur verið hjá slökkviliðinu í dag en samtals eru skráðir 16 sjúkraflutningar frá því í morgun auk 3 sjúkrafluga, þar af eitt með sjúkling suður til Reykjavíkur úr slysinu í dag.