Sjúkraflug

Til ferðarinnar var notuð Cessna Conquest. Í áhöfn voru tveir flugmenn, Elías læknir frá FSA, Vilhelm neyðarflutningamaður og undirritaður Erling slökkviliðsstjóri. Flugið til Grænlands var eins og best er á kosið, léttskýjað á norðurlandi en ekki ský á lofti þegar við nálguðumst Grænland. Flugtíminn var um ein og hálf klukkustund sem leið fljótt vegna hins frábæra útsýnis, ísbreiðan eins langt og augað eygði. Í framhaldi af því tók við mikilfengleg fjallasýn við Scoresbysund í ljósrauðum roða sólarinnar sem var lágt á lofti.

Áfangastaður okkar, flugbrautin “Constable Pynt” var eins og strik í snjóbreiðunni. Malar flugvöllur með snjóruðninga allt í kring, flugturn, nokkrar skemmur og skálar. Sjúklingurinn sem við vorum að ná í kom með þyrlu frá bænum Scoresbysund og með honum aðstandandi, sem fylgdi sjúklingnum til Íslands.

Vilhelm og Elías önnuðust sjúklinginn vel á leiðinni til baka þ.e. ferðin gekk að öllu leiti vel og mjög fróðlegt fyrir mig að kynnast því hvernig aðstæður og verklag okkar manna er í þessum ferðum.

Þjónusta í sjúkraflugi er nokkuð sem hefur aukist mikið á milli ára, sem dæmi fóru slökkviliðsmenn frá Akureyri í 180 sjúkraflug árið 2003, 270 sjúkraflug 2004 og 330 sjúkraflug 2005. Nú um áramótin stækkaði þjónustusvæði okkar þannig að gera má ráð fyrir að sjúkraflugin verði hugsamlega nærri því að ná 400 á árinu ef þessi þróun heldur áfram, með tilliti til stærra þjónustusvæðis þ.e Vestfjarða.
Það eru ýmsir þættir sem má gefa sér að hafi áhrif á þessa fjölgun á milli ára, t.d virkjanaframkvæmdir á Austurlandi, meiri kröfur í ummönnun sjúklinga og fólk meðvitaðra um þennan möguleika gagnvart sjúkum og slösuðum. Með sérhæfðri vél sem kemur til Akureyrar með vorinu verður þessi þjónusta enn betri en hún er í dag. Það er enginn flutningsmáti betri fyrir sjúklinginn hvort heldur eru þyrlur eða annað, allt frá Blönduós að meðtöldum Vestfjörðum til Hafnar í Hornafirði. Þetta segi ég að sjálfsögðu með tilliti til núverandi staðsetningu þyrlu, vegalengda, staðsetningu Landsspítala Háskólasjúkrahúss og ummönnunar við sjúkling meðan á flutningi stendur. Staðsetning Reykjavíkurflugvallar gagnvart Landsspítala Háskólasjúkrahúss verður ekki betri, ef við tökum tillit til fólksins sem þarf þessa þjónustu.