Sjúkraflug til Grænlands

Þyrlan að taka á loft til að ná í seinni sjúkling
Þyrlan að taka á loft til að ná í seinni sjúkling

Flogið var sjúkraflug til Grænlands 2. febrúrar. Flogið var á sérútbúinni flugvél Mýflugs og í áhöfn voru tveir flugmenn frá Mýflugi, tveir neyðarflutningamenn frá slökkviliðinu á Akureyri og tveir fluglæknar frá sjúkrahúsinu á Akureyri. Farið var frá Akureyri kl. 12:20 og lent á flugvellinum í Kulusuk kl. 14:20. Þar var hafist handa við að selflytja allan þann búnað sem nota þurfti í þyrluflug yfir til Ammassalik þar sem tveir sjúklingar biðu. Þyrlan flutti báða læknana og neyðarflutningsmennina ásamt búnaði yfir til Ammassalik og lenti síðan við spítalann í Ammassalik kl 14:50. Sjúklingarnir voru báðir gjörgæslusjúklingar þ.e. voru báðir í öndunarvél, með sprautudælur og í monitor. Aðeins var hægt að flytja annan sjúklingin í einu í þyrlunni og þurfti því að fara tvær ferðir. Þegar komið var með fyrri sjúklinginn á flugvöllinn í Kulusuk var veðrið farið að versna og veðurspáin var ekki glæsileg, en spáð var hvössum vindi allt að 70 hnútum í hviðum og snjókomu. Seinni sjúklingurinn lenti svo á flugvellinum á Kulusuk um kl. 16:20 og fór sjúkraflugvélin í loftið frá Kulusk áleiðis til Reykjavíkur kl. 16:40. Flugið til Reykjavíkur gekk vel, lent var á Reykjavíkurflugvelli um kl. 18:45 en þar biðu tveir sjúkrabílar sem fluttu sjúklingana á gjörgæsludeild LSH í Fossvogi.

Þetta er í fyrsta skipti sem fluttir eru tveir gjörgæslusjúklingar með sérútbúinni sjúkraflugvél Mýflugs og má því segja að þetta hafi verið ákveðin þolraun á búnaði vélarinnar þar sem tæki og búnaður voru nýtt til hins ýtrasta. Óhætt er að segja að búnaðurinn hafi staðist þá þolraun. Það voru því þreyttir en sáttir ferðalangar sem lentu á Akureyrarflugvelli, heimahöfn sjúkraflugvélarinnar, um kl. 21:00.

Myndir úr ferðinni