Sjúkraflutningar og sjúkraflug

Heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson kemur á slökkvistöðina til okkar í fyrramálið og skrifar undir samning við okkur vegna sjúkraflutninga á svæði Heilsugæslunnar á Akureyri. Breytingin í þessum samning er sú að samningsupphæðin hækkar umtalsvert. Með þessum samning óskar ráðuneytið eftir meiri þjónustu sem felst í því að manna 2 sjúkrabíla allan sólarhringinn. Eldri samningur hljóðaði upp á mönnun á 1,3 bíl á sólahring Þ.e einn sjúkrabíll allan sólahringinn og einn bíll frá kl. 08:00 til 16:00. Þetta er viðurkenning á þjónustustigi sem Slökkvilið Akureyrar hefur leitast til við að viðhafa um þónokkurn tíma. Á sama tíma mun ráðherra skrifa upp á samning við Mýflug um sjúkraflug á Norðursvæði sem nær allt frá Breiðaflóa til Hafnar í Hornafirði. Þá er eðli málsins samkvæmt næsta skref hjá okkur að gera samning við Tryggingastofnun um hlut sjúkraflutningsmannanna í sjúkrafluginu.