Það var skrifað undir samningana í dag

Undirskriftum samninga vegna sjúkraflutninga þjónustu Slökkviliðs Akureyrar á svæði Heilsugæslunnar á Akureyri er lokið. Heilbrigðisráðherra skrifaði einnig undir samning við flugrekstraraðilann Mýflug vegna sjúkraflugsins. Þessi áfangi er Slökkviliði Akureyrar mjög mikils virði í þeirri framtíðarsýn sem slökkviliðið hefur. Næsta skref er að lenda samning við Tryggingastofnun um þátt Slökkviliðs Akureyrar í sjúkrafluginu, en eins og ráðherra kom inn á í tölu sinni munu sjúkraflugin á næsta ári líklega verða um 340. Sjúkraflugið á orðið töluverðan þátt í daglegum störfum slökkviliðsins og því brýnt að gera samning vegna þess þar sem tekið er á verklagi og kostnaði. Að sjálfsögðu er aðalmarkmið og leiðarljós Slökkviliðs Akureyrar að veita íbúum Akureyrar góða þjónustu í góðu rekstrarfyrirkomulagi með ásættanlegum kostnaði pr. íbúa. Rekstur Slökkviliðs Akureyrar er sá lægsti pr. íbúa utan höfuðborgarsvæðisins, vegna þeirra samninga sem slökkviliðið hefur gert við 3 aðila.