Þjónustuborð 112 í Þórunnarstræti

Þegar horft er til síðasta árs er ég ( slökkviliðsstjóri ) mjög ánægður með þann árangur sem starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar náðu á þjónustuborðum 112. Þennan árangur tel ég að megi þakka jákvæðni og vilja slökkviliðsmanna okkar að gera þetta eins vel og nokkur kostur var. Þrátt fyrir ófullnægjandi starfsumhverfi og takmörkunar samningsins á ásættanlegri viðveru, þannig að þjónustan gæti þroskast og dafnað eins og æskilegt er. Ekki er árangrinum síður að þakka starfsfólki þjónustuborða 112 í Reykjavík sem hefur reynst okkur frábærlega, milli okkar hefur myndast góð samvinna og persónuleg tengsl sem hafa gert samstarfið ánægjulegt og árangursríkt.

En þetta er ekki nóg, það þarf að gera betur! Þessi þjónusta er þess eðlis að það verður að ganga alla leið, starfsumhverfið og rekstrargrundvöllurinn verða að bjóða upp á það. Hver sem sér um framhaldið í mönnun varastöðvar 112 á Akureyri þá verður hún að geta starfað sjálfstætt sem varastöð. Til þess að það geti gerst þarf í fyrsta lagi að gera það tæknilega mögulegt og í öðru lagi manna stöðina þannig að hún geti gengt sínu hlutverki þ.e. manna stöðina með ásættanlegri viðveru með tilliti til þjálfunar og getu til að taka við þegar 112 stöðin í Reykjavík ræður ekki við álag eða verður óstarfhæf. Þetta er væntanlega tilgangurinn og það sem fólk gerir kröfu til, þetta er það sem Slökkvilið Akureyrar gerir kröfu til. Ef varastöðin á að tryggja öryggi allra landsmanna þurfa hlutaðeigandi að vera sammála um þetta og hafa vilja og getu til þess að leggja í þann kostnað sem þarf til. Ef ekki, þá erum við væntanlega ekki að tala um þetta sem "varastöð".