Útskriftardagur Logi og Glóð.

Verkefnið Logi og Glóð er búið að vera í gangi á leikskólunum í vetur og hefur gengið vonum framar. Árgangurinn telur um 300 börn og var heldur betur gaman að fá þau til okkar. Þrautabraut hafði verið komið upp  og gripu þessir frábæru aðstoðarmenn slökkviliðsins í stúta og sprautuðu af krafti. Það vantaði ekki gleðina í hópinn ekki lét liðið á sig fá þó einhverjir blotnuðu. Grillaðar voru pylsur ofan í mannskapinn og var tekið hraustlega til matar.

Við starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar erum afar ánægð með daginn og viljum fá að þakka þeim börnum sem tekið hafa þátt í verkefninu í vetur og heimsóknina í dag. Einnig viljum við fá að þakka leikskólakennurum fyrir þeirra aðkomu að þessu verkefni en þetta er fyrsti árgangurinn sem fer í gegnum þetta verkefni og er útkoman hreint frábær.

Það er ómetanlegt að geta haldið svona dag fyrir börnin. Margir lögðu sitt lóð á vogarskálarnar til að dagurinn yrði að veruleika, og vert að nefna það hér að SBA-Norðurleið studdi dyggilega við þá aðgerð að flytja börnin til og frá svæðinu. Undirritaður þakkar einnig samstarfsfólki sínu fyrir þeirra frábæra vinnuframlag sem gerði þennan dag eins eftirminnilegan og hann varð.

kveðja

Þorbjörn Haraldsson
Slökkviliðsstjóri

Sjá einnig myndir á myndasíðu.