Fjölbýlishús

Ef þú býrð í fjölbýlishúsi þá á íbúðin þín að vera sjálfstætt brunahólf. Veggir, loft, gólf og hurðir að sameign, eiga að koma í veg fyrir útbreiðslu elds á milli íbúða. Ef þú býrð í gömlu fjölbýlishúsi og hefur áhyggjur af eldvörnum og öryggi íbúanna skaltu hafa samband við okkur og leita ráða.

Eldvarnareftirlit Slökkviliðs Akureyrar (SA) býður íbúum fjölbýlishúsa að gera úttekt á eldvörnum í sameign þeim að kostnaðarlausu. Fulltrúar húsfélaga geta pantað skoðun hér á vefnum. Skilyrði er að sá sem pantar skoðun hafi umboð húsfélagsins til þess og mikilvægt er að teikningar liggi fyrir þegar skoðun fer fram. Fulltrúi eldvarnareftirlits SA skoðar sameignina eins fljótt og kostur er í fylgd fulltrúa húsfélagsins og sendir honum skriflegar athugasemdir.

Athugasemdirnar ber að skilja sem leiðbeiningar en ekki kröfur en eldvarnareftirlitið hvetur fólk engu að síður til þess að taka mið af athugasemdunum og ráðast í úrbætur sem fyrst. Eldvarnir geta í mörgum tilvikum orðið til þess að bjarga lífi og heilsu fólks og koma í veg fyrir óþarflega miklar skemmdir af völdum elds og reyks.

Hægt er að senda beiðni inn á netfangið eldvarnareftirlit@akureyri.is

Að mörgu er að hyggja þegar hugað er að eldvörnum í sameign fjölbýlishúss. Hér að neðan eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga og starfsmenn eldvarnareftirlits athuga sérstaklega við skoðanir:

Stigahús

Veggir að stigahúsum eiga að vera a.m.k. A-EI60, þ.e. úr óbrennanlegum efnum og þola 60 mínútna brunaálag. Klæðningar í lofti og á veggjum eiga að vera úr óbrennanlegum efnum (t.d. gifsi). Hurðir að íbúðum eiga að vera a.m.k. EI-CS30 (30 mínútna brunaþol), reykþéttar og sjálflokandi. Hurð á milli geymslurýmis (eða þvottahúss) í kjallara og stigahúss ætti að vera a.m.k. EI-CS60 (60 mínútna brunaþol) með pumpu og reykþéttingum. Gólfefni eiga að vera tregbrennanleg. Opnanlegir gluggar til reyklosunar ættu að vera á sem flestum hæðum. Í gluggalausum stigahúsum á að vera gluggi eða lúga á efstu hæð sem unnt er að opna frá neðstu hæð.

Sorpgeymslur

Loft og veggir í sorpgeymslum eiga að vera úr óbrennanlegum efnum. Dyr eiga að vera læstar og ekki má vera innangengt í sorpgeymslur. Sorprenna skal ná uppúr þaki og vera eldvarin alla leið. Brennanleg efni á ekki að leggja að sorprennu. Sorplúgum á að loka vandlega. Þéttiborði og gormur eiga að vera á sorplúgum.

Brunahólfað þakrými

Þakrými þarf að vera brunahólfað með a.m.k. EI60 mínútna veggjum til að reyna að koma í veg fyrir að eldur og heitur reykur berist á milli stigahúsa.

Flóttaleiðir

Varist að nota stigahús sem geymslur. Aðgangur að svaladyrum þarf að vera greiður og auðvelt þarf að vera að opna þær. Hurðir rýmingarleiða eiga að vera opnanlegar innanfrá án lykils (t.d snerill á útihurð).

Öryggisbúnaður

Reykskynjarar eiga að vera á öllum hæðum í stigagangi og í geymslugöngum. Æskilegt er að skynjarar í geymslugangi og í stigahúsi séu samtengdir og jafnframt skynjarar í stigahúsi og íbúðum. Gasskynjari ætti að vera þar sem gas er geymt í geymslum. Handslökkvitæki á að vera í öllum íbúðum eða eldvarnateppi í hverri íbúð og handslökkvitæki í stigahúsi. Útgöngu- og neyðarlýsingar þyrftu að vera í göngum og stigahúsum.

Björgunarsvæði slökkviliðs

Við allmörg fjölbýlishús eiga að vera björgunarsvæði þar sem slökkvilið á að geta komið við slökkvi- og björgunartækjum. Þessi svæði eiga ávallt að vera eins greiðfær og kostur er. Hafðu samband við slökkviliðið með því að hringja í 112 þegar þú hefur greint atburðinn og veist hvað er að. Vertu viðbúin(n) að svara spurningum Neyðarlínu og ekki slíta samtalinu! Neyðarvörður ákveður hvenær nauðsynlegar upplýsingar hafi borist frá þér.