Almannavarnir

Almannavarnir eru samnefnari viðbragða og úrræða þegar hættu- og neyðarástand skapast í samfélaginu. Við minniháttar slys bregst hin daglega neyðarþjónusta við með hefðbundum hætti, en við almannavarnaástand fara neyðarþjónustan (lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir, sjúkrahús, Landhelgisgæslan, neyðarsímsvörun), líknarfélög (t.d. Rauði krossinn), starfsmenn sveitarfélaga (bæjarstjórar, tæknideildir) og aðrir að vinna eftir einu samræmdu skipulagi, neyðarskipulagi almannavarna.

Almannavarnanefndir skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna tjóns eða hættu sem skapast hefur, hver í sínu héraði eða umdæmi, undir stjórn lögreglustjóra. Þegar áfall hefur orðið, af þeirri stærðargráðu að úrræði innan héraðs eða umdæmis duga ekki til að mæta því, leita almannavarnanefndir eftir utanaðkomandi aðstoð til Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra samræmir starfsemi almannavarna á landsvísu og stýrir utanaðkomandi aðstoð (frá ríkisstofnunum, öðrum umdæmum eða alþjóðlegri aðstoð).

Alþjóðlegt merki almannavarna:
Merkið auðkennir starfsfólk almannavarna, búnað, húsnæði og skýli.

Í neyðarástandi þegar mikill fjöldi fólks þarf á hjálp að halda, þarf að virkja marga til þess að veita eða skipuleggja hjálpina. Því fleirum sem þarf að hjálpa, því umfangsmeiri verður aðstoðin. Reynslan bæði hérlendis og erlendis hefur sýnt að mest munar um þá sem eru nærstaddir þegar áfallið dynur yfir og rétta þarf fólki hjálparhönd. Þannig gegnir hver og einn maður mikilvægu hlutverki í almannavörnum.
Almannavarnir bregðast strax við hættu- eða neyðarástandi, en hafa skal í huga að ef margir slasast eða verða heimilislausir getur orðið bið á því að öllum berist hjálp. Því þarf fólk að vera undir það búið að bjarga sér sjálft, þar til hjálp berst.