Börn og áföll

VÁLEGIR ATBURÐIR - Upplifun og reynsla barna

Rannsóknir hafa sýnt að börn sem upplifa válega atburði áður en þau ná 11 ára aldri eru allt að þrisvar sinnum líklegri til að þróa með sér sálræn einkenni heldur en börn sem upplifa slíka reynslu í fyrsta sinn á táningsaldri eða síðar á ævinni. En börn eiga líka mun auðveldara með að vinna úr þessari reynslu sinni ef foreldrar, vinir, fjölskylda, kennarar eða aðrir fullorðnir styðja þau og hjálpa þeim með reynslu sinni. Slíka hjálp skal veita svo fljótt sem auðið er eftir atburðinn.

Mikilvægt er að muna það að sum börn sýna alls engin röskunareinkenni einfaldlega vegna þess að þeim líður ekki illa. Sum börn geta leynt öllum einkennum í vikur og jafnvel mánuði og enn önnur sýna engin einkenni, en eru engu að síður í þörf fyrir aðstoð.

Helstu hegðunareinkenni barna eftir válega atburði:

 • Uppnám eða reiði sem brýst út vegna þess að uppáhalds leikfangið, bangsinn, teppið eða aðrir hlutir sem fullorðnir telja að skipti litlu máli er týnt. Munum að þessir hlutir eru barninu mikilvægir.
 • Breytt hegðun. Hljóða, nærgætna og umhyggjusama barnið getur orðið hávaðasamt og frekt. Einnig getur opna, félagslynda barnið breyst í öndverðu sína, þ.e. orðið feimið og hrætt.
 • Auknar martraðir í svefni. Hræðsla við að sofa ein í myrkri eða ein í herbergi. Erfiðir og ógnvekjandi draumar.
 • Hræðsla við að atburðurinn endurtaki sig.
 • Uppnám og geðshræring með grátköstum, oft af litlu tilefni.
 • Minnkað traust á fullorðnum, því "þeim tókst ekki að hafa stjórn á atburðarásinni".
 • Afturhvarf í aldri / þroska, væta rúm og buxur eða sjúga fingur.
 • Hræðsla við að missa sjónar á foreldri / foreldrum, neita að fara í skóla, á barnaheimili eða til dagmömmu.
 • Sektarkennd og jafnvel hugleiðingar um að atburðurinn sé þeim að kenna vegna þess að þau gerðu eða sögðu eitthvað rangt.
 • Aukin veðurhræðsla og hræðsla við skyndilegan hávaða.
 • Sjúkdómseinkenni s.s. höfuðverkur, uppköst og jafnvel hiti.
 • Áhyggjur af öryggi fjölskyldunnar og framtíðinni.

Hvað geta hinir fullorðnu gert?  

 • Talið við börnin um það hvernig þeim líður og hlustið án þess að dæma. Segið þeim að tilfinningar þeirra geti verið ólíkar tilfinningum annarra og að það sé allt í lagi.
 • Gefið börnunum tíma til að raða hlutunum saman og hafa sínar eigin tilfinningar. Ekki þrýsta á þau og sýnið hegðun þeirra og tilfinningum virðingu.
 • Aðstoðið þau við að finna orð sem lýsa tilfinningum þeirra s.s. ánægð, hrygg, reið, kolvitlaus eða hrædd. Fullvissið ykkur um að viðkomandi orð lýsi hugsun þeirra, en ekki ykkar.
 • Fullvissaðu óttaslegið barn um það að þú verðir til staðar til að hugsa um það og hugga og mundu að nauðsynlegt getur verið að endurtaka þá fullyrðingu oft.
 • Fjölskylda skal halda hópinn eins og mögulegt er. Eins fljótt og auðið er skal taka upp hefðbundnar daglegar venjur eða móta nýjar ef aðstæður krefja. Viðhaldið öllum tímaáætlunum er að barninu snúa.
 • Fullvissið barnið um að það átti enga sök á atburðinum, hvorki með hegðun sinni eða gjörðum.
 • Leyfið börnunum að hafa áhrif s.s. að velja fötin sem þau klæðast eða hvað þau vilja borða.
 • Aðstoðið börnin við að skynja að öðrum þykir vænt um þau t.d. með heimsóknum, símtölum eða bréfaskriftum til ættingja eða vina.
 • Hvetjið börnin til að teikna mynd, eða skrifa bréf um upplifun sína og senda hana til ættingja eða vina.
 • Endurnýið sambandið við stórfjölskylduna, sé það ekki til staðar.
 • Aðstoðið börnin við að endurvinna traust sitt á fullorðnum, með því halda gefin loforð og hafið þau með í ráðum varðandi skipulag hins daglega lífs.
 • Aðstoðið börnin við að endurheimta trú á framtíðina, með því að skipuleggja atburði sem koma til framkvæmda síðar t.d. í næstu viku eða næsta mánuði.
 • Grundvöllur þess að barn sé móttækilegt og virkt í þátttöku er góð heilsa. Leitið því ávallt til læknis ef þið haldið að barnið sé ekki við fulla heilsu.
 • Tryggið að börnin borði holla og góða fæði og fái nóga hvíld. Gætið að heilsu ykkar, matarræði og hvíld svo þið sjálf séuð í stakk búin að sinna þörfum barnsins.
 • Gefið börnunum aukinn tíma þegar þau fara í rúmið. Lesið fyrir þau fallegar sögur, nuddið bakið á þeim, hlustið á þægilega tónlist eða sögur á hljóðsnældum. Talið rólega um atburði liðins dags.
 • Ef þið þurfið að dvelja fjarri heimilinu um tíma þá útskýrið fyrir barninu ástæðu þess og fullvissið þau um að þið munið koma til baka á tilsettum tíma og hafa samband á fyrirfram ákveðnum tímum.
 • Veitið börnum forréttindi eins og þau að hafa kveikt ljós í her-berginu þegar þau fara að sofa.
 • Forðist að barnið verði fyrir áreiti sem getur endurvakið ótta þeirra svo sem umfjöllun um válega atburði í fréttum sjónvarps.
 • Ekki skal krefjast þess að börn sýni sérstaka hughreysti og alls ekki skal banna þeim að gráta.
 • Verið ekki hrædd við að sýna börnum aukið eftirlæti í kjölfar válegra atburða.
 • Forðist að gefa börnum flóknar útskýringar um eðli og áhrif hins válega atburðar. Gerið ekki lítið úr atburðarásinni.
 • Finnið leiðir til að undirstrika ást ykkar og væntumþykju á barninu.
 • Leyfið börnunum að harma eða syrgja missi sinn, hver sem hann er.
 • Mótið ferli til að minnast atburðarins, t.d. eftir ár. Slíkt getur framkallað söknuð og/eða tár, en jafnframt gefst tækifæri til að þakka það sem vel hefur tekist.

Lausnir í starfi og leik

 • Hvetjið börnin til að teikna og lita myndir sem lýsa tilfinningum þeirra og reynslu af atburðinum. Hengið slíkar myndir upp og þá í þeirri augnhæð að börn eigi auðvelt með að skoða þær.
 • Búið til sögu um hinn válega atburð. Hún gæti byrjað þannig: Einu sinni varð hræðilegur .......... sem hræddi okkur öll. Nú ætlum við að segja ykkur frá hvað gerðist .......... Munið að enda söguna með því að segja "En nú erum við örugg".
 • Leikur með leir eða trölladeigi gefur börnum kost á að losa um spennu með því að móta hluti eða myndir sem tengjast upplifun þeirra.
 • Tónlist er mikilvæg og skemmtileg. Að leika sér með hljóðfæri eða slá taktinn losar um streitu og spennu.
 • Lánið börnunum fatnað og skó sem þau geta klæðst og leikið fullorðna sem settir eru til hjálpar. Gerið þeim grein fyrir þeirri ábyrgð sem slíku fylgir.
 • Hjálpið börnunum að setja upp brúðuleikhús sem byggir á reynslu þeirra af hinum válega atburði. Bjóðið foreldrum og vinum á slíka leiksýningu.

Heimild: https://www.fema.gov/children-and-disasters

Fengið af síðu Almannavarna.