Saga SA

Stórbrunar ráku Akureyringa til að stofna slökkvilið

Árið 1882 kom fyrst til tals hjá bæjaryfirvöldum að stofna slökkvilið, svo vitað sé. Rætt var um það í bæjarstjórn Akureyrar að grennslast fyrir um hversu mikið nothæf slökkvitól myndu kosta. Ekkert varð úr kaupunum í það skiptið. Eftir stórbrunann 1901 þegar 12 hús brunnu til kaldra kola kom slökkviliðið aftur til umræðu. Það var þó ekki fyrr en 31. maí 1904 að bæjarstjórn samþykkti að kaupa fyrstu slökkvitólin, tekið var sex þúsund króna lán til kaupanna. Keypt voru handdæla, slöngur og og strigafötur, sem komu til landsins á nýársdag 1905. Þann 6. desember 1905 var Ragnar Ólafsson verslunarstjóri kosinn fyrsti slökkviliðsstjóri Akureyrar, en árinu áður hafði Alþingi samþykkt lög um stofnun Slökkviliðs Akureyrar (SA).

Árið 1906 varð aftur stórbruni á Akureyri en þá brunnu sjö hús efst við Strandgötu. Tveimur árum síðar kom reglugerð um eldvarnir og SA sem samþykkt var í stjórnarráðinu 30. nóvember 1908. Miklir brunar voru á Akureyri á þessu árum og oddvitum bæjarins var það mikið kappsmál að efla eldvarnir sem mest. Það orð lék hins vegar á að sumum Akureyringum væru þær ekki beinlínis neitt hjartans mál. "“Þeir brenna sér til gagns og gamans á Akureyri, en hér kann enginn að halda á eldspítu"”, var haft eftir Jóni forna í Reykjavík. Menn geta kallað þetta gálgahúmor en sannleikurinn er sá að Jóni hefur líklega verið fúlasta alvara.

Það var útbreidd skoðun meðal samtímamanna hans að eldsvoðarnir á Akureyri væru af mannavöldum. Þessar grunsemdir voru vafalítið kveikjan að 5. grein laganna um stofnun Brunabótafélags Íslands sem samþykkt voru á Alþingi 1907. Það var þó um mitt ár 1881 að bæjarstjórn Akureyrar fjallaði í fyrsta skipti um að stofna brunabótafélag fyrir húseigendur!

Vatnsveitan stærsta brunavörnin

Á þessum árum gerðist margt athyglisvert í brunamálum á Akureyri. 1908 var stofnaður “styrktar- og verðlaunasjóður eldvarnaliðsins í Akureyrarkaupstað” og átti að nota hann til að styrkja þá slökkviliðsmenn er kynnu að slasast í baráttunni við eldsvoða. Ef þeir týndu lífi við slökkvistörf áttu ekkjur þeirra og börn rétt á stuðningi úr sjóðnum. Í þriðja lagi var heimilt að verðlauna sérstaklega þá slökkviliðsmenn er sýndu framúrskarandi dugnað við að slökkva í brennandi húsum.

Axel Schiöth bakarameistari tók við starfi slökkviliðsstjóra árið 1912 og var eftirmaður hans Anton Jónsson. Slökkviliðinu óx smám saman fiskur um hrygg varðandi búnað og þjálfun. Í byrjun árs 1918 varð Eggert St. Melstað slökkviliðsstjóri. Fór þá tala skráðra hlutastarfandi slökkviliðsmanna upp í 36. Stærsta brunavörnin var þó sjálf vatnsveitan sem tekin var í notkun 1914, en það var tvímælalaust vegna hinna tíðu stórbruna í bænum að Akureyringar voru reiðubúnir að leggja á sig þungar byrðar til að fá hana. Nær 40 brunahanar voru settir við vatnsleiðsluna út um allan bæ og mátti heita að ekki væru meira en 100 metrar á milli þeirra að jafnaði.

Fyrsti slökkvibíllinn 1930

Árið 1930 var fyrsti slökkvibíllinn keyptur, en hann var árgerð 1923. Fimm árum síðar voru settir upp handbrunaboðar á nokkrum stöðum í bænum og bjöllur á heimilum slökkviliðsmanna. Fram að þessum tíma höfðu tveir menn haft þann starfa með höndum að hlaupa um bæinn og blása í brunalúðra. Fyrsti slökkvibíllinn með vatnstanki kom svo 1947. Eftir það var ekki lengur nauðsynlegt að byrja allt slökkvistarf með slöngulögnum.

Þegar Eggert lét af störfum í árslok 1951 fyrir aldurssakir tók Ásgeir Valdimarsson verkfræðingur við sem slökkviliðsstjóri en um hann var sagt: “Hann er því ungur og óreyndur en hefir þegar skapað sér álit, enda á hann kyn til athafnamikilla góðbænda“. Þá er haft eftir Ásgeiri: "“Það eru ekki skemmtilegar tölur að frá síðasta ári (1952) voru 75% gabb með handbrunaboðum,” þrjú handbrunaboð af fjórum."Brunakvaðningar voru 24 árið 1952. Árið 1953 flutti slökkviliðið í nýtt húsnæði, Geislagötu 9, þar sem bæjarskrifstofur Akureyrarbæjar eru nú.

Þann 15. janúar 1953 hefjast svo fastar vaktir á slökkvistöðinni en þá voru fastráðnir fjórir brunaverðir, auk varaslökkviliðsstjóra. Ári síðar kom nýr slökkvibíll ásamt mörgum nýjum tækjum m.a. fyrstu reykköfunartækin með loftflöskum. Slökkvibíllinn var með háþrýstibyssum, þeim fyrstu hér á landi. Bíllinn er enn í eigu SA.

SA-1

Árið 1958 tók Sveinn Tómasson við störfum slökkviliðsstjóra og gegndi hann því embætti til ársins 1974 er Tómas B. Böðvarsson tók við. Á þessum árum eignaðist SA mörg ný tæki, svo sem körfubíl, tækjabíl, froðublásara og fleiri reykgrímur svo fátt eitt sé nefnt. Árið 1976 fékk slökkviliðið nýjan slökkvibíl með drifi á öllum hjólum og ári síðar var fyrsti reykblásarinn keyptur.

Sjúkraflutningar á landi og í lofti

SA tók að sér mönnun sjúkrabíla Akureyrardeildar Rauða kross Íslands árið 1968 og hefur það æ síðan verið snar þáttur í starfi slökkviliðsins. Í dag þjónustar SA sjúkraflutninga, með samningi við Heilbrigðisráðuneytið sem miðsöð sjúkraflutninga á Norðurlandi, á Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit og hluta af Þingeyjarsveit. Árið 1956 sömdu Brunavarnir Eyjafjarðar við bæjaryfirvöld um umsjón og eftirlit með slökkvibíl Brunavarna Eyjafjarðar.  Eldvarnaeftirlitsmaður var ráðinn í fullt starf 1974. Umsvif slökkviliðsins urðu meiri með þjónustusamningum og með stækkun bæjarfélagsins. Árið 1993 flutti SA í nýtt rúmlega 1.400 m2 húsnæði við Árstíg 2. Vísir að þjónustu SA í sjúkraflugi byrjaði 1997 og voru þau 301 á árinu 2005 þar sem SA sendir sjúkraflutningamann í sjúkraflug, þ.e. yfir 90 prósent af öllu sjúkraflugi landsins. Umsvifin í sjúkrafluginu hafa aukist ár frá ári og árið 2017 voru þau 799 talsins eftir nokkur metár þar á undan. Þann 5. júlí 2000 gerði SA þjónustusamning um rekstur slökkviliðs á Akureyrarflugvelli og þjálfun slökkviliðsmanna í slökkvistörfum Flugmálastjórnar á öllum landsbyggðaflugvöllum landsins. Árið 2011 tók ISAVIA við rekstri slökkviliðs á Akureyrarflugvelli og sinnir Slökkvilið Akureyrar því ekki lengur varðstöðu þar en er hluti af viðbragðsáætlun flugvallarins. Þann 11. júní 2001 gerir SA samstarfssamning um brunavarnir í nágrannasveitarfélögunum Eyjafjarðarsveit, Svalbarðstrandarhreppi og Hörgársveit. Tómas Búi Böðvarsson lét af störfum sem slökkviliðsstjóri 15. febrúar 2003. Erling Þór Júlínusson tók við og gegndi starfinu til ársins 2006 enn þá var Þorbjörn Guðrúnarson ráðinn í stöðu slökkviliðsstjóra. Í byrjun ágúst 2004 sameinuðust Akureyrarbær og Hríseyjarhreppur, og þar með starfsemi slökkviliða. Þorbjörn lét af störfum árið 2013 og þá var Þorvaldur Helgi Auðunsson ráðinn slökkvistjóri en hann lét svo af störfum árið 2015. Ólafur Stefánsson tók þá við starfi slökkvistjóra og var Hólmgeir Þorsteinsson ráðinn varaslökkviliðsstjóri.

Mikil uppbygging síðustu ár

Í umsjá og eign að meðtöldum fimm sjúkrabílum hefur SA 13 ökutæki alls. Mikil endurnýjun hefur orðið á tækjum og búnaði síðustu ár. Sem dæmi má nefna að árið 2005 voru keypt tvö ökutæki til slökkvistarfa, nýr Scania dælubíll með 3.000 lítra vatnstanki og 5.000 lítra dælu. Þá var keyptur notaður körfubíll sem leysir af eldri körfubíl SA frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og hann endurbættur. Þessi körfubíll hefur töluvert meiri getu en sá eldri auk þess sem hann er með stiga Árið 2008 kom til slökkviliðsins fullbúinn eiturefnagámur sem leysti af hólmi kerru sem útbúin hafði verið til að bregðast við mengunarslysum. Í maí 2006 varð stækkun á aðstöðu SA úr rúmum 1.400 m2 í rúma 2.000 m2 og er SA þar með komið með allt húsnæðið við Árstíg 2. Starfsstöðvar SA er þrjár, í Árstíg 2, í Grímsey og í Hrísey.

SA er annað tveggja atvinnuslökkviliða utan suðvesturhornsins sem er skipað atvinnuslökkviliðsmönnum á vakt allan sólarhringinn. Mikið hefur verið lagt í uppbyggingu SA síðustu ár faglega og í kynningu á starfseminni. Meðal annars opnaði SA heimasíðu í tilefni 100 ára afmælisins, www.slokkvilid.is.

SA byggir á góðum grunni, er og stefnir á að vera í fararbroddi slökkviliða á landsbyggðinni. Það veitir þjónustu sem er sambærileg við það besta sem gerist á landinu. Með virkum stuðningi bæjaryfirvalda hefur SA verið tryggt nægt fjármagn til að sinna grunnhlutverki sínu vel. Eldvarnaeftirlitið hefur verið eflt verulega og þar starfar nú öflug deild með möguleika á að þjónusta önnur sveitarfélög. Liðið hefur útvíkkað starfsemi sína með auknu þjónustuframboði og fjölgun starfsstöðva utan Akureyrar. SA á að vera eftirsóknarverður vinnustaður vegna samkeppnishæfra launa, góðrar aðstöðu og góðs starfsanda. 

 
Heimildir: Ritgerð Ólafs Búa Gunnlaugssonar úr bókinni Saga Akureyrar.