Inntökuskilyrði

Þeim sem hafa áhuga á að sækja um starf hjá SA er bent á að fylgjast með á heimsíðu Akureyrarbæjar en þar mun slökkviliðið auglýsa eftir starfsfólki.

Til þess að starfa hjá SA þarf að uppfylla ýmsar kröfur og standast inntökupróf.
Hér fyrir neðan má kynna sér inntökuskilyrðin: 

 

Menntunar- og/eða hæfniskröfur:

Gild ökuréttindi til að stjórna vörubifreið (C-réttindi).

Iðnmenntun sem nýtist í starfi slökkviliðsmanna eða sambærileg menntun og reynsla.

Jákvætt hugarfar og færni í mannlegum samskiptum.

Þær/þeir sem verða ráðnar/-ir til starfa sem slökkviliðsmenn skulu hafa góða líkamsburði, vera andlega og líkamlega heilbrigðir, reglusamir og háttvísir, hafa góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og ekki vera haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.

Standast þarf þrekpróf og læknisskoðun, auk annarra inntökuprófa.

Menntun og reynsla af störfum slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er kostur.

Gerð er krafa um vammleysi, s.s. gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmist starfinu.

Umsækjendur þurfa að uppfylla skilyrði 8.gr. reglugerðar nr.792/2001 um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

Inntökuferlið

Inntökuferlið samanstendur af þrekprófi, lofthræðslu- og innilokunarkenndarprófi, akstursprófi, læknisskoðun og viðtali. 


Þrekpróf

Göngupróf á bretti

Gengið er í eldgalla og með reykköfunartæki (stálhylki) á bakinu en ekki með öndunargrímu tengda.
Hraði á göngubrettinu er 10:40 mín/km eða um 5.6 km/klst. og stendur prófið í 8 mín.
Fyrir starfsmenn 50 ára og eldri er hraði á göngubrettinu 11:32 mín/km eða um 5.2 km/klst.
Stuðningur við brettið er bannaður í prófinu.

1 mín. í 4° halla

1 mín. í 7° halla

6 mín. í 12° halla

Styrktarpróf

Réttstöðulyftur: Þyngd 75 kg og 10 endurtekningar.

Upphífingar: 7 endurtekningar.

Armbeygjur: 7 endurtekningar í 12 kg vesti.

Planki: 60 sekúndur.

Dúkkuburður: Taka þarf dúkkuna upp með svokölluðu slökkviliðstaki og ganga með hana samtals 40 metra á innan við 60 sekúndum.
Þyngd dúkku er 70 kg.

Nánari útlistun þrekprófs og frekari upplýsingar um inntökuferlið í heild sinni má finna á heimasíðu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

 

Lofthræðslupróf

Umsækjendur fara upp í 28 metra hæð í körfubíl slökkviliðsins. Þar er metið hvort rökhugsun er til staðar og viðbragð gott.

 

Innilokunarkenndarpróf

Umsækjendur fara í reykköfunarbúnað, bundið er fyrir augu þeirra og þeim gert að leysa þrautir líkt og um alvöru reykköfun væri að ræða. Með þessu er kannað hvort innilokunarkennd sé til staðar.

 

Aksturspróf

Umsækjendur eru prófaðir í almennum akstri en í því felst aksturslag, lipurð í umferðinni, reynsla og hæfni og þekking á umferðarreglum.

 

Viðtal

Þau sem standast inntökuprófin fá boð í viðtal. Um hefðbundið atvinnuviðtal er að ræða.

 

Læknisskoðun

Þau sem verða ráðin eru boðuð í viðtal hjá trúnaðarlækni SA.

 

Nauðsynleg fylgiskjöl

  • Prófskírteini
  • Ljósrit af ökuskírteini
  • Ökuferilsskrá.
  • Almennri ferilskrá.
  • Kynningarbréf

 

Nánari upplýsingar veitir: 

Maron Pétursson

Varaslökkviliðsstjóri

Beinn sími: 461-4202
maronp@akureyri.is