Fráfall starfsfélaga.

Pétur Róbert Tryggvasonar, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Akureyrar verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju fimmtudaginn 15. ágúst kl. 13:30.  Pétur Róbert lést við skyldustörf í flugslysinu þann 5. ágúst síðastliðinn.

Pétur Róbert, sem var húsasmiður að mennt, hóf störf hjá Slökkviliði Akureyrar sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður í apríl 1999 þá 21 árs gamall.  Starfaði hann þar óslitið síðan og á þeim tíma meðal annars gengt stöðu varðstjóra auk annara trúnaðarstarfa.

Við, starfsfélagar hjá Slökkviliði Akureyrar, kveðjum þig kæri vinur með þessu ljóði eftir Hákon Aðalsteinsson.

Dökkur skuggi á daginn fellur,
Dimmir yfir landsbyggðina.
Köldum hljómi klukkan gellur,
kveðjustund er milli vina.

Fallinn dómur æðri anda,
aðstandendur setur hljóða.
Kunningjarnir klökkir standa,
komið skarð í hópinn góða.

Gangan með þér æviárin
Okkur líður seint úr minni.
Við sem fellum tregatárin
Trúum varla brottför þinni.

Þína leið til ljóssins bjarta
lýsi drottins verndarkraftur.
Með kærleiksorð í klökku hjarta
kveðjumst núna, sjáumst aftur.

(Hákon Aðalsteinsson.)

Péturs Róberts verður sárt saknað.

Guð blessi minningu hans.