Gamli SA-1 tilbúinn.

Í dag hélt slökkvilið Akureyrar formlega upp á það að Gamli forystubíll liðsins SA-1(Ford big job 1953) er tilbúinn eftir glæsilegar endurbætur.

Stórhugamennirnir Smári Jónatansson (heitinn) og Óskar Pétursson komu að máli við slökkviliðsstjóra árið 2009 og báru undir hann þeirra hugmynd að endurbótum á bílnum. Þar voru þeir komnir í krafti félagsskapar síns Eyfirskra fornbíla, þar sem megin tilgangur þeirra er að varðveita bifreiðar og tæki á svæðinu sem hafa sögulegt gildi. Ekki stóð á svörum frá slökkviliðsstjóra var hafist handa við endurbæturnar strax á haustdögum 2009. Unnið hefur verið í bílnum á þessum tíma með nokkrum hléum og í dag stendur afraksturinn hér stífbónaður inn á slökkvistöðinni fullkláraður og einkar glæsilegur.

Þann 15. janúar 1953 hófust fastar  vaktir hjá slökkviliði Akureyrar og voru þá fastráðnir fjórir brunaverðir ásamt varaslökkviliðsstjóra. Ári síðar kom svo nýi slökkvibíllinn SA-1 sá fullkomnasti á þeim tíma til liðsins og með honum margvíslegur nýr búnaður, fyrstu reykköfunartækin ásamt því að hann var útbúinn háþrýstibyssum. En með því var mögulegt að kljúfa vatnið niður í fínann úða sem margfaldar slökkvimátt þess.

Margir hafa lagt mikla og góða vinnu í bílinn þessi ár og kunnum við í slökkviliðinu þeim bestu þakkir fyrir. Slökkvilið Akureyrar er afar stolt af bílnum og framlag Akureyrarbæjar í endurbæturnar er til mikils sóma. Bíllinn er ávallt staðsettur á slökkvistöðinni og verður nýttur á tillidögum og viðburðum bærjarins í framtíðinni.

Þorbjörn Guðrúnarson

Slökkviliðsstjóri