Logi og Glóð 2024

Árlega heimsækir Slökkvilið Akureyrar elstu börnin í leikskólunum á Eyjafjarðarsvæðinu til þess að fræða börnin um eldvarnir. Í heimsóknunum nýtur Slökkviliðið aðstoðar sérstakra aðstoðarmanna, slökkviálfana Loga og Glóð. Börnin fá fræðslu um eldvarnir og fá að kynnast starfi slökkviliðsmanna og búnaðinum sem þeir nota í starfi sínu. Í heimsóknunum á leikskólana fá börnin möppu sem heitir Slökkviliðið mitt, en í henni eru meðal annars þrautir, verkefni og fræðsla um eldvarnir.

Fimmtudaginn 16. maí síðast liðinn var haldin útskriftarhátíð fyrir börnin úr elstu deildum leikskólanna sem þakklætisvott frá Slökkviliðinu fyrir þá góðu vinnu sem þau hafa sinnt í brunavörnum í leikskólunum í vetur. Þá voru leikskólarnir sóttir á rútum og boðið í heimsókn á Slökkvistöðina þar sem þau glímdu meðal annars við þrautabraut, fengu að æfa sig á brunaslöngunum og prófa reykköfun. Að lokum var svo öllum boðið upp á grillaðar pylsur og safa. Um 220 börn mættu á Slökkvistöðina og áttu með okkur frábæran dag.

Við viljum þakka þessum flottu krökkum og starfsfólki leikskólanna fyrir heimsóknina og samveruna í vetur.

Fleiri myndir frá heimsókninni má sjá hér.