Fréttir

Sjúkraflug til Grænlands

Slökkvilið Akureyrar er þessa stundina á leið til Nuuk á vesturströnd Grænlands með sjúkraflugvél Mýflugs að sækja tvo sjúklinga.

Rýmingaræfing á leikskólanum Pálmholti

Það tók ekki langan tíma að rýma leikskólann Pálmholt í morgun.  Um kl. 10.00 var reykskynjari settur í gang og í framhaldi hófst rýming á öllum deildum.  Gekk það hratt og vel fyrir sig og börnin fóru í öllu eftir því sem þeim var fyrirlagt.  Safnast var saman í og við sandkassann á lóðinni og þar  var gert nafnakall.  Æfing sem þessi er til að undirbúa og þjálfa bæði starfsfólk og börnin undir það að bregðast rétt við ef upp kæmi eldur í húsnæðinu.      

112 opnar varðstofu á Akureyri

Neyðarlínan, 112, opnar varðstofu með þremur neyðarvörðum á Akureyri í dag, föstudaginn 16. mars. 112 hefur hingað til haft varastöð í húsnæði lögreglunnar á Akureyri en nýja varðstofan verður í fullum rekstri samhliða varðstofunni í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í Reykjavík.  Varastöðin á Akureyri var fyrst opnuð vorið 2005 og var þá mönnuð slökkviliðsmönnum frá Slökkviliði Akureyrar.  Þeir mönnuðu stöðina fram í febrúar 2006 en þá varð ekki framhald á samningi 112 og Slökkviliðs Akureyrar.  Starfsemi varastöðvar lá síðan niðri þar til nú.  Það er mikið fagnaðarefni að fá fastar stöður neyðarvarða á Akureyri og verður okkur mikil stoð í starfsemi viðbragðsaðila hér á svæðinu.

Framlengdur umsóknarfrestur um starf eldvarnaeftirlitsmanns.

Ákveðið hefur verið að framlengja umsóknarfrest um starf eldvarnaeftirlitsmanns.  Frestur er gefinn til 2. apríl til að sækja um starfið. 

Nám í sjúkraflutningum

Þessa dagana er verið að kenna grunnám í sjúkraflutningum. Námskeiðið er samkeyrt á Akureyri og í Reykjavík.

Reykskynjari sannar gildi sitt.

Reykskynjari og hárrétt viðbrögð húsráðanda komu í veg fyrir stórtjón þegar að eldur kom upp í húsi á Akureyri aðfaranótt miðvikudags. Lögreglu og slökkviliði barst tilkynning um miðnætti um eld í einbýlishúsi við Kringlumýri á Akureyri. Þar hafði eldur kviknað út frá eldavélahellu sem hafði líklega kviknað á þegar verið var að þrífa hana um kvöldið. Húsráðandi var sofandi heima ásamt 2 börnum sínum þegar reykskynjari fór í gang og vakti heimilisfólk. Húsmóðirin sýndi mikið snarræði og slökkti eldinn með handslökkvitæki áður en hann náði að breiðast út.