30.04.2007
Eins og Akureyringar og Eyfirðingar allir tóku eftir ákváðu nokkrir bændur í Eyjafjarðarsveit að brenna sinu um helgina. Í sunnanáttinni barst reykurinn yfir nærliggjandi sveitir, á laugardaginn fengu íbúar austan fjarðar reykinn yfir sig en í blíðviðrinu í gær barst reykurinn yfir Akureyri og Hörgárbyggð. Slökkviliðið hefði svo gjarnan viljað slökkva þennan eld eins og aðra elda en þegar menn hafa leyfi sýslumanns og lögin á bakvið sig þá getum við því miður lítið gert nema kallað eftir breytingum á viðkomandi lögum.
Frétt mbl.is um málið.Frétt RUV um málið.
27.04.2007
Frétt fengin af heimasíðu Síðuskóla.
Föstudaginn 20. apríl, var haldin rýmingaræfing. Þessi æfing var sokkaæfing, en það köllum við æfingar þar sem nemendur vita ekki fyrirfram að það er æfing og þurfa að stökkva út eins og þeir eru staddir þá stundina þegar bjallan glymur. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að sjá hvernig nemendur bregðast við hættunni þegar enginn er fyrirvarinn.
23.04.2007
Á heimasíðu FSA hefur verið stofnuð sérstök síða varðandi sjúkraflug. Tilgangurinn með þessari vefsíðu er að koma á framfæri upplýsingum og fréttum um þjónustu lækna og sjúkraflutningamanna sem starfa við sjúkraflug frá Akureyri. Upplýsingarnar eru f.o.f. ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki í dreifbýli sem nýtir þessa þjónustu.
Heimasíða FSA
18.04.2007
Á laugardagskvöldið sl. var Slökkviliðið kallað út vegna elds í sinu í Lækjargili á Akureyri, sunnan við FSA. Voru sendir dælubílar af báðum stöðvum, Árstíg og flugvelli og tókst að slökkva eldinn á skömmum tíma þrátt fyrir erfiðar aðstæður en þarna er skógarreitur, mjög bratt og erfitt að komast að. Gerðar voru ráðstafanir til að forða því að reykur færi inn á loftræstikerfi FSA. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við þurfum að slökkva í sinu á þessum stað en þarna er mikill og þykkur gróður og eldur á greiða leið upp brekkuna. Í öllum tilvikum hefur verið um íkveikju að ræða.
Frétt akureyri.net
12.04.2007
Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins er athyglisverð grein um stöðu sjúkraflutninga á landinu utan höfuðborgarsvæðissins. Höfundar eru læknar á FSA, ásamt skólastjóra Sjúkraflutningaskólans og bráðatæknis hjá Slökkviliði Akureyrar en þessir aðilar hafa unnið mikið að málefnum sjúkraflutninga í landinu bæði á landi og í lofti.