Fréttir

Eldvarnarátak 2006

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur gefið út blaðið "Slökkviliðsmaðurinn" og dreift því í öll hús á landinu.   Samhliða verða allir 3. bekkingar í grunnskólum heimsóttir og fá þeir fræðslu um eldvarnir.  Eldvarnareftirlitið og slökkviliðsmenn sjá um þessar heimsóknir í sameiningu.

Mikið álag vegna sjúkraflugs

Á laugardaginn var farið í 400 sjúkraflugið á þessu ári frá Akureyri og þegar þetta er skrifað er sjúkraflug nr. 407 að hefjast.  Samtals hafa verið fluttir 418 sjúklingar í þessum 407 ferðum.  Þetta er mikil aukning en til samanburðar voru flugin 271 árið 2003, 300 árið 2004 og 314 árið 2005.

Útkall vegna þotu Iceland Express

Um kl. 14:23 í dag barst tilkynning frá Flugturninum á Akureyri að vél Iceland Express hefði tilkynnt um reyk í farþegarými.  Vélin var þá nýlent á Akureyrarflugvelli eftir flug frá Kaupmannahöfn.  Liðsmenn Slökkviliðs Akureyrar á flugvelli gerðu strax ráðstafanir en á flugvellinum eru ávallt 4-5 menn með tvo öfluga slökkvibíla þegar þotur lenda á flugvellinum.  Ennfremur voru allir slökkviliðsmenn á frívakt kallaðir út og sendir dælubíll og sjúkrabíll úr Árstíg á flugvöll.

Annríki um helgina

Talsvert annríki hefur verið hjá Slökkviliði Akureyrar um þessa helgi.  Frá föstudegi fram til sunnudags eru skráðir 15 sjúkraflutningar, þar af 5 neyðarflutningar.  Tvisvar sinnum hefur liðið verið kallað út í klippuvinnu vegna umferðarslysa, annað skiptið í Ljósavatnsskarð og hitt skiptið að Laugum í Reykjadal til aðstoðar slökkviliðinu á Húsavík.  Þá var slökkviliðið kallað út klukkan 17:17 í gær, laugardag, í 8 hæða fjölbýlishús við Drekagil.  Þar hafði verið kveikt í stórri bréfakörfu í anddyri hússins og var nokkur eldur og mikill reykur þegar að var komið.  Lögreglan rannsakar málið því fullvíst þykir að um íkveikju hafi verið að ræða.  Þrjú sjúkraflug hafa verið um helgina auk þess sem sjúklingur úr slysinu í Reykjadal var fluttur með þyrlu LHG til Reykjavíkur. 

Grunnnámskeið í sjúkraflutningum

Í morgun hófst grunnnnámskeið í sjúkraflutningum (EMT-Basic) og fer það fram á Akureyri og í Reykjavík. Myndfundabúnaður er notaður til að varpa fyrirlestrum á milli staða og koma fyrirlesarar ýmist frá Akureyri eða Reykjavík. Hér á Akureyri fer bókleg kennsla á FSA en verkleg kennsla hér á slökkvistöðinni.  Þátttakendur eru 11 og þar af eru 4 frá Slökkviliði Akureyrar en aðrir þátttakendur koma frá Raufarhöfn, Dalvík, Húsavík, Djúpavogi, Selfossi og Kópavogi.

Eldur í Keilusíðu 9

Rétt eftir kl. 17 í dag var tilkynnt um reyk úr íbúð í fjölbýlishúsi við Keilusíðu á Akureyri.  Sjúkrabíll, dælubíll og körfubíll voru strax sendir á staðinn.  Reykkafarar fóru strax inn í íbúðina og leituðu af fólki en íbúðin reyndist mannlaus.  Eldur logaði í pappír og eldhúsviftu en talið er að eldurinn hafi orðið vegna þess að straumur var á eldavél.  Það sem logaði var borið út á svalir og slökkt í því með vatni.

Þakkir til Varðar

Ég vil koma á framfæri þökkum til Tryggingafélagsins Varðar, fyrir þá góðu viðurkenningu sem þeir færðu slökkviliðsmönnum á Akureyri.

Slökkviliðsmenn fá viðurkenningu fyrir vel unnin störf

Laugardagsmorguninn 15. apríl 2006 kom upp eldur á miðhæð hússins að Fjólugötu 18. Á þeirri hæð voru heima unglingspiltur ásamt móður sinni og sýndi pilturinn mikið snarræði og rétt viðbrögð, m.a. með að hringja strax í 112 og lýsa aðstæðum. Þetta flýtti fyrir komu slökkviliðs og tókst reykköfurum að bjarga manni og þremur ungum börnum sem sváfu á efstu hæð hússins.

Ný mengunar- og slysatjöld

Slökkviliðið hefur fengið ný tjöld frá Trelleborg sem eru sérstaklega ætluð til afeitrunar í mengunarslysum en nýtast einnig á ýmsan annan hátt, t.d. við stærri slys eða sem skjól þar sem þörf er á.  Brunamálastofnun veitti SA og SHS sérstakan styrk til að kaupa tjöldin en þau eru hugsuð sem búnaður á landsvísu.  Tjöldin eru keypt hjá Ólafi Gíslasyni og stóðu þeir fyrir námskeiði í Reykjavík í síðustu viku til að kenna notkun þeirra.